Þess vegna eingöngu hér...

miðvikudagur, desember 01, 2004

Ekki gráta... þetta lagast allt!

Ég er hætt að blogga.... hérna.

Þess í stað ætla ég að blogga fyrir þig.... Hérna

föstudagur, nóvember 05, 2004

Myndir!

Það eru komnar myndir hér til hliðar. Gaurinn var í myndatöku hjá Smáfólki og kann ég Kristínu og David góðar þakkir fyrir. Endilega skoði þið þetta litla brot en ég fékk 250 myndir af kallinum.

Hrafndís, ó svo stolt....

laugardagur, október 30, 2004

Geiri!

Geiri, las konan í kommenti síðustu færslu. Eitt andartak fylltist hún spennu og æsingi. Hver er Geiri?
Kannski ákaflega hugumstór aðdáandi sem fyllir loftið angan og ilmi (já já stolið frá R. Inga frænda mínum) og er allt það sem prýðir draumaprinsinn.
En á annað borð gæti þetta verið Geiri Palli frændi minn. Ekki það að hann sé ekki alger bomba en... æ, bara ekki það sama. Ég er alls ekki að hallmæla honum þegar ég vilo meina að þetta sé ekki hann, stafsetningin er nefnilega til fyrirmyndar.
Ekki löngu seinna er gleðin og spennan horfin þar sem hún sér fyrir sér lítinn bólugrafinn og hokinn einstakling sem 15 tíma sólarhrings helgar sig lífi veraldarvefsins og leitar uppi andlausar ungar stúlkur sem bera það með sér í skrifum sínum að þær séu ákaflega einmanna. Ekki hún samt, bara... hinar þið vitið.
Að lokum herðir hún sig upp og manar sjálfa sig í að skrifa nýjan pistil...

Hrafndís, ekkert forvitin, bara andlaus...

föstudagur, október 29, 2004

Getur verið...?

Að ég sé einfaldlega ekki nógu áhugaverður einstaklingur til að halda úti svona dagbókarsíðu?
Ég hef velkst um í vafa undanfarna daga og liðið illa útaf þeirri staðreynd að ég hef ekkert til að "blogga" um. Það sprettur af mér kaldur sviti á kvöldin þegar ég er komin undir sæng og hugsa sem svo: "á morgun VERÐ ég að blogga".

En um hvað??? Jú, sonur minn er oftar en ekki ágætisumræðuefni. Hann kúkar í baðið og slefar út fínu stásspúðana og annan húsbúnað sem Ingunn frænka hans er hvað stoltust af. EN það er ekki janfáhugavert fyrir landann eins og fyrir stolta móðurina.
Ég gæti jú farið út í heimspekilegar umræður á borð við pólitík og barnauppeldi og farið stórum orðum um það sem ég í raun hef enga þekkingu á en veit að þykir flott að vita.
En ég hugsa að ég myndi fljótlega koma upp um sjálfa mig og eigin fáfræði. Því það er víst nú einu sinni þannig að það er ekki það sem þú ekki veist sem gerir þig heimskan heldur það sem þú þykist vita en veist ekki. Náðir þú þessu?
Að síðustu dettur mér í hug að ég get sjálfsagt bloggað um daginn og veginn. Þið vitið; "Í gær vaknaði ég, borðaðið kornfleks og fór síðan í sturtu. Notaði örlítið head and shoulders og dove hárnæringu. Fór síðan í Kringluna..." Þið skiljið, svona það sem maður kallar auglýsingablók. En ég hugsa að líklegast er heimurinn fullur af slíku og ég er ekki rétti aðilinn í næsta eintak. Ertu enn með á nótunum?

Ef svo er þá er þetta sjálfsagt augljóst. Ég verð að standa í því nótt sem nýtan dag að hugsa upp á einhverju afar snjöllu og hnyttnu að segja svo ég standi ekki á gati þegar kemur að vikulegu blóki. Kaldur sviti og almenn örvænting er það sem koma skal alla daga lífs míns þar til ég uppgötva aftur að það sé best að sleppa þessu.

En þangað til þá,

Hrafndís, sjálfsagt haldin örlítilli sjálfspíningarhvöt.


sunnudagur, október 17, 2004

Ég þjáist af...

... Slúðurleysi!

Ég hef jú fengið að vita niðurstöður úr Mottukeppninni en annað ekki. Lítið sem ekkert fengið að heyra af Papaballi og auglýsi hér með eftir sögum.

takk!

Hrafndís, mér er bara ekki sinnt...

Er það bara ég...

... eða er alveg ótrúlegur "bömmer" að missa af úrslitakveldi Mottukeppninnar?
Ég er við það að gráta úr mér augun.
En verð líklegast að læra að lifa með því. Eða eins og góður Svíi sagði eitt sinn: "En bestemt proces medförer altid samme tilstandsforandring, men den omvendte slutning er ikke tilladelig". Og þar hafiði það! En hvað þýðir þetta? Hef ekki hugmynd. En fannst "tilladelig" gott orð. TILLAdelig... er maðurinn lamaður?!?
Hahaha... Já, allt í lagi, þetta er löngu búið.
Það var enginn annar er Kristían Knak sem ritaði þessu góðu orð. Gott ef hann er ekki bara Dani...
Við Gíslinn höfum það gott í borg óttans. Þessa stundina hefur okkur meira að segja hlotnast hjásvæfa og er það engin önnur en Þingmúlarauð. Það er óneitanleg gleði og ætla ég að vona að sonur minn lesi þetta þegar hann verður 17 ára foli og uppgötvar að eitt sinn svaf hann í sama rúmi og heitfengur kvennmaður. ...og mann ekki einu sinni eftir því.
Og að lokum vil ég koma því á framfæri að ég hef enn ekki jafnað mig eftir að hafa lesið bullið í manninum...

Hrafndís, ekkert blauð þrátt fyrir enga Tilladelig-keppni.... eeeeða mottukeppni!

föstudagur, október 15, 2004

Hér er ég aftur komin...

Er þetta ekki sjúkt?
Ætli ég þykist ekki hafa meiri tíma. Ef ekki þá stel ég mínútu eða tveimur frá aðgerðaleysi mínu. allt þetta er Gísling mínum að kenna þar sem hann er ekki meiri fyrirhöfn en svo að ég hef alveg nægan tíma.
Ég vil heiðra einn Hans með því að linka fyrst á hann í fyrstu færslu minni. Hans þessi heitir Friðbjörn Orri Ketilsson og er, að því er mér virðist, dæmigerður drengur á uppleið sem sér sér fært að sleikja rassinn á mönnum eins og Hannesi Hólmsteini Gissurasyni í frístundum. Nema þetta sé eitthvað grín og ég er ekki að fatta. Finnst einkar sorglegt að sjá ungt fólk trúa á svona stefnur. Eins gott að honum fatist ekki flugið einn daginn og geti ekki borgað skólann og heilbrigðisþjónustuna fyrir börnin sín.
Best fannst mér samt að sjá að ég ætti að skammast mín fyrir að vera að þiggja peninga á meðan ég er í fæðingarorlofi. Mér líður bara illa, best að hringja á morgun í Tryggingastofnun og afþakka orlofið og lifa á loftinu. Bara svo Dabbi kóngur og Frobbi félagi minn geti dundað sér saman í einhverjum gæluverkefnum, eins og t.d. að gera sjálfa sig ríkari og fátæka fátækari. Kallið mig skrýtna en ég hef hvergi séð Pampers gefins.
Svo vil ég benda ykkur á að skoða myndasafnið. Annað eins safn af montprikírassmyndum hef ég aldrei séð. "Hér er ég með Hakuna Ma Ta Ta, frkv.stj. Analírass...."
Nú líður mér betur. Smá ómálefnalegt skítkast kemur mér alltaf í stuð. Grey strákurinn.

Kannski heyrið þið meira frá mér... seinna

Hrafndís, ekkert nema pampers og pæjuföt fyrir aurinn sagði maurinn...